Fáðu tilboð í þjónustu
Þjónusta

Innheimta

Skilvirk innheimta og kröfustjórnun

Stjórnendur fyrirtækja gera kröfu um góðan árangur, skilvirkni og umfram allt traust og góð samskipti þegar kemur að innheimtuþjónustu og útvistun. Samstarf Motus við fjölda fyrirtækja og stofnana skilar bættum árangri í innheimtu með mun minni tilkostnaði og fyrirhöfn. Motus byggir ráðgjöf sína á kunnáttu og þekkingu sem hefur myndast í innheimtuþjónustu við fyrirtæki og stofnanir til margra ára.

Tímasparnaður og aukin þægindi eru meðal ástæðna þess að viðskiptavinir velja Motus til samstarfs við innheimtu á vanskilakröfum. Breytt forgangsröðun hjá greiðendum og bætt greiðsluhegðun er hluti af þeim ávinningi sem viðskiptavinir njóta af samstarfinu. Reynslan sýnir að vanskilakröfum fækkar og tíminn sem fer í innheimtu minnkar.
Motus býður upp á heilsteypt innheimtuferli og veitir þjónustu á öllum stigum innheimtu, þ.e. fruminnheimtu, milliinnheimtu, löginnheimtu og kröfuvakt. Viðskiptavinir Motus hafa því góða yfirsýn yfir innheimtuna á viðskiptavef Motus allt frá fyrstu innheimtuaðgerð.

Greiðendur geta lent í tímabundnum greiðsluerfiðleikum og skiptir þá höfuðmáli að bregðast við af festu og tryggja greiðslu krafna. Mikilvægt er að haga innheimtunni á þann hátt að góðir viðskiptavinir eigi afturkvæmt í viðskipti þrátt fyrir tímabundin vanskil. Hjá Motus er því lögð áhersla á að virðing og kurteisi sé höfð að leiðarljósi í öllum samskiptum við greiðendur.

Ávinningur

 • Markviss innheimta og stýring viðskiptakrafna
 • Skarpari sýn á stöðu útistandandi reikninga og þróun
 • Aukin skilvirkni, aukið lausafé og lægri fjármagnskostnaður
 • Minni vinna við utanumhald og innheimtu vanskilakrafna
 • Sveigjanleiki; mikilvægi viðskiptavina haft að leiðarljósi við val á innheimtuleiðum
 • Rafræn samskipti við öll helstu hugbúnaðarkerfi og greiðsluseðlaþjónustur bankanna
 • Persónulegri samskipti við viðskiptavini, aukinn tími og betri þjónusta
 • Aðgangur að reynslu starfsmanna og fræðslu hjá Motus

Fruminnheimta

Fruminnheimta Motus felst í útsendingu innheimtuviðvörunar sem send er út í nafni kröfuhafa, en samkvæmt innheimtulögum sem tóku gildi í janúar 2009 ber kröfuhafa að senda út innheimtuviðvörun til greiðanda áður en til frekari innheimtuaðgerða kemur. Lögbundið er að gefa greiðanda tíu daga til að greiða áður en gripið er til frekari innheimtuaðgerða. Innheimtuviðvörun þarf að uppfylla ákveðin skilyrði til að teljast lögleg og ábyrgist Motus að svo sé ásamt því að sjá um hýsingu hennar fyrir þá kröfuhafa sem nýta sér þjónustu Motus í fruminnheimtu. Sé lögbundnum formskilyrðum ekki fullnægt við útsendingu innheimtuviðvörunar getur það haft kostnað í för með sér fyrir kröfuhafa og tafið fyrir innheimtu kröfunnar. Því er mikilvægt að þær ítrekanir sem viðskiptavinir Motus senda til greiðenda áður en kröfur koma til innheimtu uppfylli öll skilyrði innheimtulaganna.

Í innheimtuviðvörun er vísað til samstarfs kröfuhafa við Motus en kannanir hafa sýnt að slík tilvísun eykur greiðsluforgang ógreiddra krafna umtalsvert. Reikningar sem ekki eru greiddir innan tilskilins frests færast sjálfkrafa í milliinnheimtu en kröfuhafi hefur ávallt fulla yfirsýn yfir stöðu hverrar kröfu og getur tekið ákvarðanir jafnóðum um framhald innheimtunnar. Sé um ítrekuð vanskil að ræða eykst þungi innheimtunnar jafnt og þétt allt þar til full heimild laganna hefur verið nýtt.

Ávinningur viðskiptavina felst í auknu hagræði og skilvirkari meðhöndlun reikninga þar sem markvissir ferlar stytta innheimtutíma útistandandi krafna og bæta fjárstreymið. Að auki öðlast viðskiptavinir góða yfirsýn yfir innheimtuna í heild sinni gegnum viðskiptavef Motus.

Milliinnheimta

Markvissar aðferðir skila árangri

Markmið milliinnheimtu er að bæta fjárstreymi kröfuhafa á hagkvæman hátt án þess að skaða viðskiptasambönd kröfuhafa og greiðenda. Virðing við greiðandann er því alltaf höfð að leiðarljósi í öllu starfi Motus. Sérhæfður þriðji aðili á oft auðveldara með að innheimta gjaldfallnar kröfur áður en til löginnheimtu kemur. Um leið öðlast kröfuhafi ákveðna fjarlægð frá innheimtunni og getur þá einbeitt sér að öðrum arðbærari verkefnum.

Algengast er að Motus taki við kröfum beint úr innheimtukerfi bankanna, en í undantekningartilfellum eru kröfur handskráðar. Í milliinnheimtu er greiðandi áminntur með bréfasendingum og hringingum. Greiðandi er hvattur til þess að hafa samband hafi hann athugasemdir varðandi kröfuna eða vilji hann semja.

Í innheimtuferlinu er hugsunin sú að greiðandi gjaldfallinnar kröfu beri þann raunkostnað sem af vanskilum hans hlýst. Þetta er gert með því að leggja á hóflega innheimtuþóknun fyrir hverja innheimtuaðgerð, en um leið er gjaldið hvetjandi því með greiðslu getur greiðandi komist hjá frekari kostnaði og tekur gjaldið mið af viðhlítandi reglugerð. Aðferðir Motus hafa skilað fyrirtækjum og stofnunum bættu innheimtuhlutfalli, minni tilkostnaði, betri ímynd og viðhaldið tryggum viðskiptasamböndum.

 

Millilandainnheimta

Gott samstarf við Intrum - hvar sem er í heiminum

Motus er samstarfsaðili Intrum, sem er markaðsleiðandi fyrirtæki í Evrópu á sviði kröfustjórnunar. Intrum rekur eigin skrifstofur í 23 löndum í Evrópu og er með víðfeðmt net samstarfsaðila í vel á annað hundrað löndum.

Sérstaða Intrum felst í því að búa alltaf yfir nauðsynlegri þekkingu nánast hvar í heiminum sem innheimta þarf vanskilakröfur. Með því að hafa ávallt aðgang að innlendum aðila til að annast innheimtur er tryggður aðgangur að sérfræðiþekkingu hvað varðar venjur, hefðir og löggjöf í viðkomandi landi. Aðgangur að þessari þekkingu getur haft í för með sér umtalsverðan sparnað fyrir kröfuhafa.

Þeir sem notfæra sér millilandainnheimtu geta unnið markvisst að innheimtu víðsvegar í heiminum með því einu að vera í sambandi við fulltrúa sinn hjá Motus. Fulltrúar í millilandainnheimtu Motus annast öll samskipti við erlenda aðila og upplýsa kröfuhafa um framgang málsins. 

Kröfuvakt

Flestir kannast við það að hafa hætt innheimtu og sett mál til hliðar með það að markmiði að taka á þeim síðar. Það vill þó oft dragast og málin gleymast og eftir því sem lengri tími líður því erfiðara er að taka upp innheimtuna að nýju. Í slíkum tilvikum getur Kröfuvaktin skilað kröfuhafa góðum árangri.

Kröfuvakt Motus er skilvirk og öflug leið til að vinna markvisst með kröfur eða kröfusöfn sem að öðru leyti væru án vinnslu hjá kröfuhafa. Kröfuvaktin hentar fyrir lágar kröfur sem hafa farið árangurslaust í gegnum milliinnheimtu og kröfur sem hafa farið í gegnum árangurslausa löginnheimtu og væru annars afskrifaðar fyrir fullt og allt. Oft vænkast hagur þeirra sem lent hafa í greiðsluerfiðleikum og þá vilja menn gjarnan gera hreint fyrir sínum dyrum. Fylgst er með þessum aðilum og sætt lagi að innheimta þegar tækifæri gefst.

Auk þess að fylgjast með högum greiðanda sér kröfuvaktin um allan frágang mála: Sendir út ítrekanir, sér um greiðsludreifingu, veitir fresti og metur mótmæli.  Kröfuhafi þarf engar áhyggjur að hafa af framgangi mála, aðeins er haft samband við hann í undantekningar tilfellum, t.d. ef greiðandi biður um ítarlegar upplýsingar um kröfuna.

 

Löginnheimta

Lögheimtan - samstarfsaðili Motus í löginnheimtu

Lögheimtan var stofnuð árið 1980 og var fyrsta sérhæfða innheimtustofan hérlendis. Frá upphafi hefur Lögheimtan verið stærsti aðili landsins á sviði löginnheimtu. Lögheimtan annast vinnslu löginnheimtu fyrir flesta viðskiptavini Motus og er þjónusta Lögheimtunnar þannig hluti af þeirri heildarlausn sem fyrirtækið býður viðskiptavinum sínum.

Í löginnheimtu er úrræðum réttarkerfisins beitt við innheimtu vanskilakrafna. Löginnheimta er þannig samheiti yfir fjölmargar aðgerðir sem getur þurft að beita ef innheimta á kröfu með hjálp dómstóla og sýslumanna. Það fer eftir tegund kröfu hvaða úrræðum er beitt, en hér er um að ræða aðgerðir s.s. stefnubirtingu, greiðsluáskorun, dómsmeðferð, fjárnám, nauðungarsölu og gjaldþrot.

Löginnheimta getur verið viðeigandi kostur í eftirfarandi tilfellum:

Ef ágreiningur er um kröfu og svo virðist sem ólíklegt sé að málið verði leyst með ”mjúkum” aðferðum.

Ef greiðandi sýnir tómlæti þrátt fyrir að honum séu sendar ítrekanir.

Ef greiðandi virðist ekki hafa getu eða vilja til að greiða skuld sína.

Ef hætta er á að fjárhagsleg staða greiðanda versni.

Ef dráttur veldur því að lagaleg staða kröfuhafa versnar vegna fyrningar.

Fjórar meginástæður fyrir því að kröfuhafar fá dóm fyrir öllum sínum kröfum

 1. Dómur er grundvöllur skráningar aðila í vanskilaskrá Creditinfo og gildir sú skráning í 4 ár, en skráning í vanskilaskrá eykur til muna líkurnar á því að krafa fáist greidd.
 2. Dómur lengir fyrningarfrest kröfu í 10 ár, en það hefur í för með sér að Motus getur meðhöndlað kröfurnar mun lengur í kröfuvakt og þannig aukast líkurnar á því að krafan fáist greidd síðar meir.
 3. Dómur tryggir að hægt sé að krefjast fjárnáms í eignum greiðanda.
 4. Dómur getur komið sér vel vegna innheimtuaðgerða síðar meir, ef greiðandi öðlast greiðsluhæfi á ný.

Á þessari síðu eru notaðar vafrakökur í þeim tilgangi að bæta upplifun notenda og halda utan um og mæla frammistöðu vefsins og umferð um hann, svo sem tölfræðilegar upplýsingar um fjölda notenda og hegðun þeirra á honum.

Flestir vafrar heimila notkun á vefkökum sjálfkrafa, en notendur geta sjálfir afvirkjað þann möguleika.

Nánari upplýsingar Samþykkja notkun