Þegar kröfur hafa farið í gegnum frum- og milliinnheimtu án greiðslu þarf að taka ákvörðun um hvort hefja skuli lögheimtu eða ekki. Lögheimta er kostnaðarsamt og tímafrekt ferli og því mikið unnið, fyrir kröfuhafa og greiðanda, að geta metið eins vel og kostur er hvort lögheimta er líkleg til árangurs.
Þegar um jafnstórt kröfusafn ræðir og það sem Motus ber ábyrgð á skiptir miklu máli að geta metið líkur á því að lögheimta svari kostnaði. Motus hefur um árabil stuðst við aðferðir byggðar á klassísku tölfræðilíkani, gagnasafni og sérfræðiþekkingu starfsfólks. Nýtt líkan nýtir nýjustu aðferðir í gagnavísindum, sem skilar enn betra spágildi og á endanum betri árangri fyrir hönd okkar viðskiptavina til að bæta bæði ferla og ákvarðanatöku.
Nýtt og endurbætt tölfræðilíkan okkar spáir, líkt og það eldra, fyrir um greiðslulíkur á næstu 13 mánuðum, í málum sem ekki hafa innheimst í frum- og milliinnheimtu. Tilgangurinn er fyrst og fremst að styðja við ákvörðun um hvort hefja eigi lögheimtu eða ekki, þó má einnig nýta það í fleiri ákvörðunum með örlitlum aðlögunum.
Miðað við fyrra líkan hefur aðferðafræðin verið endurbætt og það fært yfir í tegund líkana sem hentar betur fyrir vandamál af þessu tagi. Fyrra líkan byggði á klassísku tölfræðilíkani en með því að nýta framfarir síðasta áratugs í reiknigetu og gagnainnviðum hefur spágeta nýja líkansins aukist umtalsvert og mun það hjálpa til við að veita viðskiptavinum betri ráðgjöf við ákvörðunartöku.
Líkanið tekur tillit til upplýsinga um viðkomandi kröfu og greiðanda, t.d. skráninga á vanskilaskrá, aldurs málsins og lýðfræðilegra breyta. Einnig eru aðskilin líkön fyrir fyrirtækjagreiðendur annars vegar og einstaklingsgreiðendur hins vegar.
Líkanið mun veita viðskiptavinum okkar aukið öryggi í ákvörðunum um lögheimtu og lækka þann kostnað sem kröfuhafar sitja eftir með vegna árangurslausra lögheimtumála. Með þessu minnkar áhætta kröfuhafa við lögheimtu og ákvörðunartaka verður auðveldari.