Blogg

Vanskil aukast hjá heimilum og fyrirtækjum

Skilvísum greiðendum fjölgaði mikið á tímum Covid farsóttarinnar og hafa greiðendur haldið nokkuð vel í þessar breyttu greiðsluvenjur. Fram á mitt ár 2021 minnkuðu vanskil umtalsvert og héldust lág þrátt fyrir miklar sviptingar í hagkerfinu. Í lok árs 2023 sáum við þó fyrstu merki um að vanskil væru að aukast hjá bæði heimilum og fyrirtækjum. Sú þróun hefur haldið áfram og vanskil aukast nú umtalsvert hjá bæði heimilum og fyrirtækjum.

Marktæk aukning vanskila  

Vanskil drógust talsvert saman á tímum heimsfaraldurs m.a. vegna lægri vaxta og breyttra neysluhátta. Nú má þó greina að vanskil bæði heimila og fyrirtækja eru að aukast marktækt og hafa aukist hraðar síðustu mánuði. Aukningin gæti bent til þess að langvarandi verðbólga og háir vextir séu farin að hafa áhrif á greiðslugetu.

Kröfum sem greiddar eru eftir eindaga hefur þannig fjölgað um 0,9% frá sama tíma fyrir ári (rúllandi meðaltal 6 mánaða). Alvarleg vanskil fyrirtækja hafa sömuleiðis aukist það sem af er ári. Heilt yfir eru vanskil enn töluvert undir því sem var fyrir heimsfaraldur en hröð og stöðug aukning síðustu mánuði vekur sérstaka athygli. Aukin vanskil á almennum greiðslukröfum geta haft forspárgildi um víðtækari fjárhagsvanda framundan. 

 

Þróunina greina hjá bæði einstaklingum og í öllum greinum atvinnulífsins en meiri aukningar verður þó vart hjá einstaklingum. Alvarlegum vanskilum fyrirtækja, þar sem greiðslur tefjast lengur en 45 daga umfram eindaga, fjölgar þó hraðar en alvarlegum vanskilum einstaklinga. Þróunin er sömuleiðis í takt við aukinn málafjölda á borði Motus undanfarin misseri

 

Alvarleg vanskil aukast

Alvarleg vanskil eru mæld út frá hlutfalli ógreiddra krafna 45 dögum eftir eindaga. Hlutfallið er tekið af öllum stofnuðum kröfum viðskiptavina Motus. Eftir því sem hlutfallið lækkar fækkar kröfum sem fara í alvarleg vanskil. Árið 2023 fjölgaði alvarlegum vanskilum fyrirtækja í fyrsta sinn síðan árið 2020 og hefur þróun haldið áfram það sem af er 2024 og með meiri hraða en í fyrra. Alvarleg vanskil fyrirtækja eru 2,56% sem er enn töluvert undir því sem þau voru 2020 þegar þau voru 3,44%.  

 

Alvarleg vanskil einstaklinga virðast þó hafa staðið nokkurn veginn í stað síðasta árið en þróunin bendir sterklega til þetta gæti snúist til verri vegar. 

Breytingin mest síðustu 6 mánuði

Það eru skýr merki um að vanskil séu að aukast jafnt og þétt í fyrsta sinn síðan fyrir heimsfaraldur og áhyggjuefni ef þessi þróun heldur áfram, segir Brynja Baldursdóttir, forstjóri Motus. Það sem við stöldrum sérstaklega við er að þessi aukning er að gerast ansi hratt á síðustu mánuðum eftir að hafa farið mjög rólega af stað í lok síðasta árs. Kröfur eru lengur að greiðast og höfuðstólarnir eru hærri en áður.  Við erum að horfa á greiðsluhraða krafna í rauntíma í okkar gögnum og sjáum þessa þróun því mun fyrr en t.d. opinberar stofnanir. Kröfur á borð við áskriftir og þjónustur eru oft með því fyrsta sem verður undir þegar kreppir að og fólk fer að forgangsraða hvaða reikninga það greiðir. Aukning á slíkum vanskilum getur bent til þess að alvarlegri vanskil t.d. á íbúða- eða bílalánum geti komið í kjölfarið og að þörf sé á samtali eða aðgerðum til að bregðast við. Það er okkar von að þessar upplýsingarnar gagnist bæði opinberum aðilum og einkageiranum og geti verið ákveðin viðvörunarbjalla, því ef vanskil aukast mjög hratt er það til merkis um að eitthvað sé að gerast sem bregðast þurfi við. 

 


Við komum fjármagni á hreyfingu

Motus er leiðandi fyrirtæki á sviði kröfuþjónustu fyrir fyrirtæki, sveitarfélög, lífeyrissjóði og opinbera aðila. Hjá Motus starfar fjölbreyttur hópur sérfræðinga um land allt sem veitir ráðgjöf um skilvirka kröfuþjónustu. Auk þess að rýna vanskil og greiðsluhraða gerum við samanburðarskýrslur og sértækar greiningar eftir óskum. Við hvetjum þig til að hafa samband og fá ráðgjöf um aðgerðir sem líklegar eru til að bæta kröfustýringu þíns félags. Sérfræðingar okkar taka vel á móti þér.