Vanskil í sögulegu lágmarki

Þrátt fyrir sveiflur í hlutfalli krafna í vanskilum og alvarlegum vanskilum síðustu misseri virðast vanskil einstaklinga og fyrirtækja vera komin á nýjan jafnvægispunkt sem er töluvert lægri en hann var fyrir heimsfaraldurinn.

Síðustu ár hafa einkennst af sögulega lágum vanskilum en í lok árs 2023 sáum við þó fyrstu merki um að vanskil væru að aukast hjá bæði heimilum og fyrirtækjum. Um mitt ár 2024 var ljóst að alvarleg vanskil voru að aukast nokkuð og þá sérstaklega hjá fyrirtækjum, en kröfur í alvarlegum vanskilum eru verðmæti sem eru líklegri til að tapast. Þessi þróun tók þó breytingum með haustinu og seinni hluta ársins lækkuðu vanskil aftur á flestum mælikvörðum þrátt fyrir hátt vaxtastig og ýmsa stóra óvissuþætti í samfélaginu. 

Það sem af er ári hafa vanskil bæði einstaklinga og fyrirtækja lækkað og er nú svo komið að þau hafa aldrei verið lægri. Það er því ýmislegt sem bendir til þess að vanskil hafi náð nýju jafnvægi – og að það jafnvægi sé töluvert lægra en það var fyrir heimsfaraldur.  

Lítil vanskil hjá einstaklingum
Hlutfall krafna í vanskilum hjá einstaklingum í lok september var 11%, samanborið við 11,9% á sama tíma í fyrra og 16,3% árið 2019. Alvarleg vanskil einstaklinga, þar sem vanskil hafa staðið yfir lengur en 45 daga, eru sömuleiðis með minnsta móti og hafa aðeins einu sinni mælst lægri. Það sem af er ári eru þau einungis 1,3% miðað við 1,5% á sama tíma í fyrra og 2,44% á sama tíma 2019. 

Vanskil fyrirtækja lækkað umtalsvert
Vanskil fyrirtækja hafa aldrei verið lægri en það sem af er ári eða 14,5%. Þau voru 15,1% á sama tíma í fyrra og 20,8% í september 2019. Alvarleg vanskil fyrirtækja eru sömuleiðis í lágmarki og það sem af er ári standa þau í 1,9% miðað við 2,5% á sama tíma í fyrra og 3,6% 2019. 

Vanskil hafa dregist saman í öllum geirum að undanskildum kröfum sem gefnar eru út af fyrirtækjum í heilbrigðisþjónustu og matvælaframleiðslu. Alvarleg vanskil hafa sömuleiðis lækkað umtalsvert í öllum geirum, að heilbrigðisþjónustu undanskilinni. Sjá töflu hér að neðan sem sýnir vanskil og alvarleg vanskil janúar-ágúst 2024 og 2025.

 

Tafla með hlutfall vanskila eftir atvinnugreinum

 

Vanskil við sveitarfélög batnað  

Vanskil í kröfum útgefnum af sveitarfélögum hafa batnað í takt við almenna þróun og er hlutfall krafna í vanskilum á eindaga lægra en landsmeðaltalið á meðan hlutfall krafna í alvarlegum vanskilum hefur nokkurn veginn staðið í stað og er örlítið hærra en meðaltalið. 

Almennt lækka vanskil við sveitarfélögin bæði meðal einstaklinga og fyrirtækja. Sá hópur einstaklinga sem helst er í vanskilum við sveitarfélögin er einstæðingar/einstaklingar með börn á framfæri. Í flokki fyrirtækja eru það ferðaþjónustufyrirtæki (gististaðir og veitingahús) og landbúnaður sem er einna helst í vanskilum við sveitarfélögin. 

Tölfræðigraf sem sýnir þróun vanskila einstaklinga og fyrirtækja

 

Nýtt og töluvert lægra jafnvægi

Þrátt fyrir sveiflur í hlutfalli krafna í vanskilum og alvarlegum vanskilum síðustu misseri virðast vanskil einstaklinga og fyrirtækja vera komin á nýjan jafnvægispunkt sem er töluvert lægri en hann var fyrir heimsfaraldurinn. Erfitt er að sjá hvað veldur því að fólk og fyrirtæki standa nú betur í skilum en áður. Verðbólga er lengi búin að vera yfir markmiði Seðlabankans og vaxtastigið því hátt, en engu að síður er greiðsluhraði mun betri en hann var fyrir sex árum. Hvað sem veldur höldum við áfram að rýna í gögnin sem við búum yfir, enda geta sveiflur í vanskilum gefið mikilvæga innsýn inn í þróun efnahagsmála. 

 


Við komum fjármagni á hreyfingu

Motus er leiðandi fyrirtæki á sviði kröfuþjónustu fyrir fyrirtæki, sveitarfélög, lífeyrissjóði og opinbera aðila. Hjá Motus starfar fjölbreyttur hópur sérfræðinga um land allt sem veitir ráðgjöf um skilvirka kröfuþjónustu. Auk þess að rýna vanskil og greiðsluhraða gerum við samanburðarskýrslur og sértækar greiningar eftir óskum. Við hvetjum þig til að hafa samband og fá ráðgjöf um aðgerðir sem líklegar eru til að bæta kröfustýringu þíns félags. Sérfræðingar okkar taka vel á móti þér.