Jafnvægisvogin hefur nú veitt viðurkenningar til 128 þátttakenda sem náð hafa markmiði verkefnisins um jöfn kynjahlutföll í efsta lagi stjórnunar.
Viðurkenningar voru veittar til 90 fyrirtækja, 22 opinberra aðila og 16 sveitarfélaga úr hópi þeirra 253 þátttakenda sem hafa undirritað viljayfirlýsingu. Markmið Jafnvægisvogar um 40/60 kynjahlutfall í efsta stjórnendalagi var haft til hliðsjónar við matið. Stór hluti þeirra þátttakenda sem hafa skrifað undir viljayfirlýsingu Jafnvægisvogarinnar hafa náð góðum árangri á þessu sviði.
„Það gleður mig mjög að taka við viðurkenningu Jafnvægisvogar FKA fyrir hönd Motus. Mín reynsla er að jafnrétti er ákvörðun sem skilar árangri í rekstri fyrirtækja. Jafnrétti er ekki átak heldur langtímaverkefni og ég er þakklát FKA fyrir að halda áfram að vekja athygli á því sem vel er gert og hvetja atvinnulífið áfram á jafnréttisvegferðinni”, segir Brynja Baldursdóttir forstjóri Motus.
Að hreyfiaflsverkefninu standa, auk FKA, dómsmálaráðuneytið, Creditinfo, Deloitte, Pipar\TBWA, Ríkisútvarpið, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Sjóvá. Allar helstu upplýsingar um verkefnið má finna á vef verkefnisins: https://www.fka.is/verkefni/jafnvaegisvogin
