Stjórn Símans hf. og Greiðslumiðlunar Íslands ehf. hafa undirritað samkomulag um kaup þess fyrrnefnda á öllu hlutafé í Greiðslumiðlun Íslands. Greiðslumiðlun Íslands á og rekur Motus. Kaupin eru háð hefðbundnum fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.
María Björk Einarsdóttir, forstjóri Símans:
„Með kaupunum nýtum við styrkleika félaganna í vöruframboði, innviðum og viðskiptasamböndum til að skapa enn meira virði fyrir viðskiptavini okkar og hluthafa. GMÍ býr að traustum vörumerkjum, rótgrónum viðskiptasamböndum og öflugu starfsfólki sem hefur verið í stöðugri nýsköpun síðustu misseri, líkt og við þekkjum vel hjá Símanum.
Árangur GMÍ við að þróa stafrænar lausnir og þjónustu fyrir fjármálaferla fyrirtækja á margt sammerkt með þeirri vegferð sem fjártækniarmur Símans hefur verið á síðustu ár. Þá búa bæði félög yfir stafrænum greiðslu- og lánalausnum í fremstu röð.
Næstu misseri ætlum við að nýta sterka fjárhagsstöðu Símans til að efla starfsemina enn frekar, bæði með innri og ytri vexti. Kaupin eru mikilvægt skref á þeirri leið og sýna í verki trú okkar á áframhaldandi sókn á sviði fjártækni.“
Brynja Baldursdóttir, forstjóri Greiðslumiðlunar Íslands:
„Við hlökkum til að ganga til liðs við samstæðu Símans og erum sannfærð um að það muni skila viðskiptavinum beggja félaga miklum ávinningi. Greiðslumiðlun Íslands er öflugt fjártæknifyrirtæki sem hefur byggt upp sterka innviði og víðtæka þekkingu til að efla nýsköpun og vöruþróun í greininni. Viðskiptavinir okkar hafa þegar notið góðs af nýjungum sem kynntar hafa verið á síðustu mánuðum, og við ætlum að halda áfram af krafti á þeirri vegferð.
Síminn hefur á sama tíma þróað spennandi fjártæknilausnir og sýnt mikinn metnað til vaxtar á því sviði. Við sjáum fram á fjölmörg tækifæri beggja fyrirtækja til að sækja fram og styðja við áframhaldandi framþróun á íslenskum fjártæknimarkaði.”