Þegar krafa fellur í vanskil eru allar líkur á að kröfuhafinn reyni að innheimta kröfuna í þeim tilgangi að fá hana greidda. Hefðbundin innheimtustig eru tvö; frum- og milliinnheimta á fyrri stigum og löginnheimta á síðari stigum.
Þessi tvö stig eru talsvert ólík í eðli sínu. Þó markmiðið sé það sama – að vanskilakrafan verði greidd – eru aðferðirnar ólíkar. Þannig er megininntakið í frum- og milliinnheimtu að minna á að krafan sé í vanskilum og hvetja greiðandann til að standa við skuldbindinguna á meðan með löginnheimtunni er beitt aðferðum réttarfarslaga til þess að ná fram greiðslu.
Markmiðið með frum- og milliinnheimtu er að gera kröfuhöfum kleift að beita minna íþyngjandi innheimtuaðgerðum fyrst eftir vanskil, bæði honum og greiðandanum til hagsbóta. Það gengur yfirleitt eftir, en í langflestum tilvikum er milliinnheimta fullreynd áður en krafa er send lögfræðingi til innheimtu. Grunnstoðirnar eru í raun tvær, annars vegar sú að greiðandinn skuli bera kostnaðinn sem hlýst af innheimtunni og hins vegar að á fyrri stigum skuli þeim kostnaði stillt í hóf.
Dæmi um innheimtukostnað á máli í frum- og milliinnheimtu
Hér höfum við tekið saman dæmi um ógreidda kröfu upp á 100.000 kr. sem fer í vanskil. Sé krafan ógreidd fimm dögum eftir eindaga fær greiðandinn senda innheimtuviðvörun. Hún kostar greiðanda 950 kr. Sé krafan enn ógreidd 15 dögum eftir eindaga má segja að hið eiginlega innheimtuferli hefjist með svokallaðri milliinnheimtu. Milliinnheimta felur í sér þrjár áminningar til viðbótar við innheimtuviðvörun þar sem hver kostar greiðandann 5.900 kr. Ofan á þetta reiknast svo dráttavextir. Eftir 35 daga er höfuðstóll + innheimtukostnaður komin í 120.260 kr. Athugið að mismunandi er eftir kröfuhöfum hversu mörg bréf eru send og hversu langt líður á milli, og hvort virðisaukasakttur er innheimtur eða ekki. Sjá einnig: Verðskrá frum-og milliinnheimtu
Ef krafa fer í gegnum allt milliinnheimtuferlið án þess að hún greiðist er kröfuhafanum yfirleitt nauðugur einn kostur að halda áfram innheimtuaðgerðum. Þá er líka yfirleitt nokkuð langur tími liðinn frá gjalddaga. Næstu skref felast í flestum tilvikum í löginnheimtu, sem getur verið gríðarlega kostnaðarsöm fyrir bæði greiðandann og kröfuhafann. Þess vegna er yfirleitt allt kapp lagt á að ná fram lausn áður en til þess kemur.
Fékkstu bréf frá okkur?
Ef þú hefur fengið bréf frá okkur vegna ógreidds reiknings hvetjum við þig til að kanna hvaða möguleikar standa þér til boða til að greiða skuldina og þar með forðast kostnaðarsamar innheimtuaðgerðir. Á Mínum síðum getur þú hvenær sem er skoðað stöðu þinna mála, greitt upp kröfur, dreift greiðslum og sótt um greiðslufrest. Skuldar þú meira en þú ræður við að greiða? Þér eru ýmsar leiðir færar og það er alltaf betra að heyra í okkur sem allra fyrst.