Umsögn um túlkun FME á 7. gr. innheimtulaga um heimild til að senda innheimtuviðvaranir stafrænt
Þann 21. desember síðastliðinn gaf fjármálaeftirlit Seðlabankans út drög að umræðuskjali með leiðbeiningum varðandi túlkun á 7. gr. innheimtulaganna. Í drögunum er fjallað um möguleika á að senda innheimtuviðvaranir til greiðenda með rafrænum hætti.
Við höfum kynnt okkur drögin og sendum umsögn um efni þess á eftirlitið þann 18. janúar.
Miðað við þessi drög fjármálaeftirlitsins virðast kröfuhöfum vera settar verulega þröngar skorður við að senda greiðendum innheimtuviðvaranir með rafrænum hætti.
Möguleikinn á notkun rafrænna samskiptaleiða er í samræmi við þá afstöðu stjórnvalda að rafræn samskipti séu til þess fallin að auka hagræði og leiða til einföldunar og tímasparnaðar fyrir samfélagið í heild, eins og meðal annars kom fram í áformum um frumvarp til laga um stafrænt pósthólf. Sambærileg þróun hefur átt sér stað á öllum sviðum samfélagsins undanfarin ár. Til að mynda hafa fyrirtæki á fjármála- og vátryggingamarkaði stóraukið þjónustu við viðskiptavini sína með stafrænum lausnum, ekki síst til að geta komið skilaboðum til þeirra með einföldum og öruggum hætti. Sömuleiðis má benda á að þróunin á Norðurlöndunum er á sama veg. Í Noregi hefur t.d. sú leið verið farin í innheimtu að kveða á um tæknihlutleysi í innheimtulögum, þ.e.a.s. skriflegar tilkynningar má senda rafrænt að því gættu að þær séu sendar með fullnægjandi hætti.
Við hjá Motus fögnum því að fjármálaeftirlitið hafi hafið samtal um ávinninginn af því að nýta stafrænar aðferðir í samskiptum við greiðendur og teljum að túlkun eftirlitsins á 7. gr. innheimtulaga sem kemur fram í drögunum sé skref í rétta átt. Hins vegar teljum við að það þurfi mun meira til svo ýta megi undir eðlilega framþróun á þessu sviði. Til þess að ná yfirlýstu markmiði innheimtulaganna um að treysta hag neytenda, meðal annars með því að tryggja að nauðsynlegar tilkynningar berist þeim með traustum og tímanlegum hætti, er nauðsynlegt að gera breytingar á þeim ákvæðum innheimtulaganna sem þetta snerta.
Margar leiðir eru færar að því marki. Ein þeirra væri að skoða hvort í þessum tilgangi mætti nýta þá tæknilegu innviði sem ríkið hefur byggt upp á undanförnum árum, meðal annars með tilkomu stafræns pósthólfs. Sterk rök standa til þess að lögboðnar tilkynningar sem ætlað er að hafa réttaráhrif eigi heima þar, óháð því frá hverjum þær eru sendar. Þá væri augljós kostur að almenningur getur nálgast enn fleiri mikilvæg skilaboð á einum og sama staðnum. Í umsögninni bendum við á að best færi á að fjármálaeftirlitið hefði frumkvæði að því að vekja athygli ráðuneytisins á stöðu þessara mála og knýja á um nauðsynlegar endurbætur á lögunum til að mæta þeim áskorunum og nýta þau tækifæri sem felast í sífellt örari tæknibreytingum.
———————
Reykjavík 18. janúar 2023
Efni: Umsögn um túlkun FME á 7. gr. innheimtulaga
Motus ehf. hefur kynnt sér umræðuskjal fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands nr. 20/2022 um drög að að svari við fyrirspurn sem fjármálaeftirlitinu barst varðandi túlkun á 7. gr. innheimtulaga nr. 95/2008. Motus ehf. fagnar því að til standi að gefa út leiðbeiningar um túlkun á framangreindu ákvæði innheimtulaganna hvað varðar þann möguleika að senda innheimtuviðvaranir til greiðenda með rafrænum hætti.
Möguleikinn á notkun rafrænna samskiptaleiða er í samræmi við þá afstöðu stjórnvalda að rafræn samskipti séu til þess fallin að auka hagræði og leiða til einföldunar og tímasparnaðar fyrir samfélagið í heild, eins og meðal annars kom fram í áformum um frumvarp til laga um stafrænt pósthólf.
Sú afstaða er jafnframt samræmi við þróun sem hefur átt sér stað á öllum sviðum samfélagsins undanfarin ár. Auk þeirra aðgerða sem hið opinbera hefur haft frumkvæði að má meðal annars nefna að fyrirtæki á fjármála- og vátryggingamarkaði hafa stóraukið þjónustu við viðskiptavini sína með stafrænum lausnum, ekki síst til að geta komið skilaboðum til þeirra með einföldum og öruggum hætti.
Sambærileg þróun hefur átt sér stað á ýmsum sviðum á öðrum Norðurlöndum. Hvað varðar tilkynningar í tengslum við innheimtu hefur í Noregi verið farin sú leið að kveða á um tæknihlutleysi í innheimtulögunum, en þar segir að skriflegar tilkynningar megi senda rafrænt að því gættu að þær séu sendar með fullnægjandi hætti. Hvort það skilyrði er uppfyllt byggir þá á mati hverju sinni, en almennt má gera ráð fyrir að það sé tiltölulega ljóst hvort það er skilyrði er uppfyllt.
Ákvæði innheimtulaga nr. 95/2008, sem hafa að meginstefnu til lítið breyst í fimmtán ár, hafa hins vegar verulega staðið því í vegi að sambærileg þróun geti átt sér stað á sviði vanskilainnheimtu hér á landi. Sú grein laganna sem fjallar um lögboðnar innheimtuviðvaranir er raunar óbreytt frá setningu laganna. Ekki þarf að tíunda þær miklu breytingar sem orðið hafa á þessum tíma, ekki síst hvað snertir stafræna þróun.
Eins og áður er getið fagnar Motus ehf. því að fjármálaeftirlitið hafi til skoðunar með hvaða hætti rafrænar samskiptaleiðir geti að óbreyttum lögum verið nýttar við vanskilainnheimtu en er þó þeirrar skoðunar að rýmri túlkun á 7. gr. innheimtulaga ein og sér sé ekki til þess fallin að liðka fyrir nauðsynlegri framþróun nema að litlu leyti. Motus ehf. bendir á að sú túlkun sem kemur fram í umræðuskjali fjármálaeftirlitsins nr. 20/2022 er ekki sérstaklega rúm og gefi innheimtufyrirtækjum í raun ekki nema að litlu leyti tækifæri til að nýta starfrænar lausnir til að koma tilkynningum til greiðenda.
Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að einungis verði heimilt að nota rafrænar samskiptaleiðir í þeim tilvikum sem skuldari hefur veitt upplýst samþykki fyrir þeim samskiptamáta. Þetta hugtak – upplýst samþykki – virðist ekki almennt notað til að lýsa samskiptum milli þeirra sem eiga í reiknings- eða lánsviðskiptum, þó undantekningar séu þar á, en er þekkt á sviði vísindarannsókna og persónuréttar. Motus ehf. telur að ólíklegt sé að aðferðir sem til þessa hafa verið notaðar til að ákveða hvernig aðilar sem eiga í viðskiptasambandi eiga samskipti sín á milli uppfylli ströngustu skilyrði um upplýst samþykki eins og það hefur almennt verið túlkað.
Í öðru lagi er einungis gert ráð fyrir að samkomulag um þennan sendingarmáta geti komist á milli kröfuhafa og skuldara. Eðlilegt væri að skuldari og innheimtuaðili gætu jafnframt samið um hvernig tilkynningum er háttað. Með því væri komið í veg fyrir að skuldari þyrfti að lýsa þessum vilja sínum yfir við alla mögulega kröfuhafa, sem eru misjafnlega í stakk búnir til að halda utan um þessa afstöðu, heldur væri upplýsingunum komið á framfæri við innheimtuaðilann sem sinnir þjónustu við fjölda kröfuhafa.
Í þriðja lagi og að lokum eru rafræn samskipti verulega þröngt túlkuð í umræðuskjalinu þar sem þau eru eingöngu talin eiga við um sendingu tölvupósta. Það er hins vegar fjarri því eini mögulegi sendingarmáti tilkynninga. Motus ehf. telur nauðsynlegt að fleiri sendingarmátar væru mögulegir og að það væri á ábyrgð kröfuhafa eða innheimtuaðila, sem lýtur ströngu opinberu eftirliti, að tryggja að sá sendingarmáti sem verður fyrir valinu sé nægjanlega tryggur samkvæmt lögum og uppfylli önnur skilyrði. Hér má benda á að ólíkt skráningu lögheimilis, sem hverjum einstaklingi er skv. lögum nr. 80/2018 um lögheimili og aðsetur skylt að viðhalda að viðlögðum sektum, er hvergi til gagnagrunnur með upplýsingum um netföng, hvorki opinber né annar. Því er viðbúið að þröngar heimildir til að nota netföng hafi lítinn ávinning í för með sér. Þá telur Motus ehf. ástæðu til að velta því upp hvort sú túlkun fjármálaeftirlitsins að almennt megi semja um frávik frá 7. gr. laganna sé í samræmi við 2. gr. þeirra, þar sem er með tæmandi hætti talið hvenær frávik eru heimil með samningi.
Með vísan til framanritaðs fagnar Motus ehf. því að fjármálaeftirlitið hafi hafið samtal um ávinninginn af því að nýta stafrænar aðferðir í samskiptum við greiðendur og telur að túlkun eftirlitsins á 7. gr. innheimtulaga sem kemur fram í umræðuskjalinu sé skref í rétta átt. Hins vegar telur Motus ehf. að það þurfi mun meira til svo ýta megi undir eðlilega framþróun á þessu sviði. Til þess að ná yfirlýstu markmiði innheimtulaganna um að treysta hag neytenda, meðal annars með því að tryggja að nauðsynlegar tilkynningar berist þeim með traustum og tímanlegum hætti, er nauðsynlegt að gera breytingar á þeim ákvæðum innheimtulaganna sem þetta snerta.
Margar leiðir eru færar að því marki. Ein þeirra væri að skoða hvort í þessum tilgangi mætti nýta þá tæknilegu innviði sem ríkið hefur byggt upp á undanförnum árum, meðal annars með tilkomu stafræns pósthólfs. Sterk rök standa til þess að lögboðnar tilkynningar sem ætlað er að hafa réttaráhrif eigi heima þar, óháð því frá hverjum þær eru sendar. Þá væri augljós kostur að almenningur getur nálgast enn fleiri mikilvæg skilaboð á einum og sama staðnum. Motus ehf. telur að best færi á að fjármálaeftirlitið hefði frumkvæði að því að vekja athygli ráðuneytisins á stöðu þessara mála og knýja á um nauðsynlegar endurbætur á lögunum til að mæta þeim áskorunum og nýta þau tækifæri sem felast í sífellt örari tæknibreytingum.
Motus ehf. þakkar fjármálaeftirlitinu fyrir að hafa veitt félaginu tækifæri á að skila inn umsögn um drögin og áréttar að verði þess óskað er félagið reiðubúið til að veita eftirlitinu frekari skýringar á þeirri afstöðu sem hér kemur fram í bréfi þessu sem og að taka þátt í samtali um frekari framþróun á sviðinu.